Búist við afsögn Martins síðar í dag

Breska þinghúsið
Breska þinghúsið Reuters

Michael Martin, forseti neðri deildar breska þingsins, mun væntanlega tilkynna afsögn sína klukkan 13:30 að íslenskum tíma í dag, samkvæmt fréttum breskra fjölmiðla í dag. Er hann fyrsti forseti neðri deildarinnar sem hrekst úr embættinu í meira en þrjú hundruð ár. Er ástæðan hneykslismálin vegna meintar misnotkunar margra þingmanna og ráðherra á reglum um endurgreiðslur kostnaðar, en forsetinn þykir hafa staðið sig illa í því máli.

Líkt og fram kom í Morgunblaðinu í dag mælti Martin í gær fyrir breytingum á reglum um kostnaðargreiðslur og sagðist vera „afar hryggur“ yfir sínum þætti í málinu en bætti við að allir þingmenn yrðu að axla sinn hluta af ábyrgðinni. Nokkrir þingmenn púuðu og hvöttu Martin til afsagnar. Myndi hann þannig axla ábyrgð á þeim alvarlega trúnaðarbresti sem hefði orðið á milli þingmanna og almennings.

Douglas Carswell, þingmaður Íhaldsflokksins, sagði m.a. að þingið þyrfti nýjan forseta með „siðferðislegan myndugleika“.

Martin hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir það hvernig hann hefur tekið á hlunnindamálinu. Hann reyndi m.a. ákaft að koma í veg fyrir að gögnum um það væri lekið í fjölmiðla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka