Michael Martin, forseti neðri deildar breska þingsins, lýsti því yfir í dag að hann myndi segja af sér embætti 21. júní í kjölfar fríðindahneykslisins sem valdið hefur trúnaðarbresti þings og þjóðar í Bretlandi að undanförnu.
Martin hefur sætt harðri gagnrýni þingmanna að undanförnu fyrir það hvernig hann hefur haldið á málinu. Var lögð fram vantrauststillaga á hann í gær en Martin neitaði að taka hana til umræðu.
Hann virðist síðan hafa komist að þeirri niðurstöðu í nótt að honum væri ekki lengur sætt í embætti og þegar hann boðaði yfirlýsingu eftir hádegið í dag var ljóst hvert stefndi.
Martin sagðist í yfirlýsingunni segja af sér til að tryggja einingu á breska þinginu.
Gert er ráð fyrir að nýr þingforseti verði kjörinn 22. júní.