Stasi reyndi að fá Merkel til liðs við sig

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Reuters

Austurþýska leyniþjónustan Stasi reyndi að fá Angelu Merkel, núverandi kanslara Þýskalands, til liðs við sig þegar hún sótti um vinnu í háskóla á tímum kommúnistastjórnarinnar. Merkel hafnaði þessari málaleitan og fékk ekki starfið.

Merkel ólst upp í Austur-Þýskalandi og varð árið 2005 fyrsti kanslari Þýskalands, sem þaðan kemur, rifjaði upp í viðtali við ARD sjónvarpsstöðina, að eftir að hún kom í viðtal í tækniháskólanum í Ilmenau hafi henni verið vísað inn í herbergi. Þar sat fulltrúi frá Stasi og beið.

„Ég sagði strax, að þetta ætti ekki við mig," segir Merkel í viðtalinu, sem verður sent út í kvöld. Hún hefur ekki sagt frá þessu áður en margir stjórnmálamenn frá Austur-Þýskalandi hafa lent í vandræðum eftir að í ljós kom að þeir störfuðu fyrir Stasi með einhverjum hætti. 

Merkel, sem er eðlisfræðingur að mennt, segist hafa búið sig undir það að Stasi myndi leita til hennar. Hún sagðist hafa ætlað að segja, að hún gæti ekki þagað yfir leyndarmálum og myndi kjafta þeim í vini sína. 

„Það dugði því þagmælska var grundvallarskilyrði," sagði Merkel, og bætti við að hún hefði ekki fengið starfið í háskólanum.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert