Carla Bruni, eiginkona Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta, gagnrýnir Benedikt XVI. páfa harðlega fyrir afstöðu sína til notkunar getnaðarvarna í Afríku. Segir Bruni páfann hafa valdið því að hún hafi gerst enn fjarlægari trúnni en sjálf er hún kaþólikki.
Talið er að ummæli hennar kunni að valda reiði á meðal kaþólikka en skoðun hennar er sú að páfagarður þurfi að þróast í takt við tímann.
Tilefni ummæla hennar eru þau orð páfa að skírlífi og einkvæni séu besta vörnin gegn alnæmi í Afríku, dreifing smokka geti jafnvel aukið á vandann.
Olli sú staðhæfing miklu fjaðrafoki.
„Ég fæddist kaþólikki, ég var skírð, en í lífi mínu hef ég verið mjög veraldlega sinnuð. Ég tel að deilan sem spannst af ummælum páfa - sem fjölmiðlar greindu raunar ónákvæmlega frá - hafi ollið miklum skaða. Í Afríku er það oft kirkjan sem lítur eftir sjúku fólki. Það er með ólíkindum að horfa upp á muninn á kenningunni og raunveruleikanum.
Ég tel að kirkjan þurfi að þróast í þessum málum. Hún kynnir smokkinn sem getnaðarvörn sem hún, af hendingu, bannar, þrátt fyrir að hann sé eina vörnin að svo stöddu,“ sagði Bruni í samtali við tímaritið Femme Actuelle, sem er, eins og nafnið gefur til kynna, með kvenlegu ívafi.