Gagnrýna undanlátssemi gagnvart hvalveiðum

Til stendur að veiða allt að 150 langreyðar hér við …
Til stendur að veiða allt að 150 langreyðar hér við land í sumar. mbl.is/Ómar
Fráfarandi formaður Alþjóðahvalveiðiráðsins sætti gagnrýni á Bandaríkjaþingi í gærkvöldi fyrir að gefa of mikið eftir í viðræðum við Japana. Reynt hefur verið undanfarið ár að ná samkomulagi innan hvalveiðiráðsins milli hvalveiðiþjóða og hinna sem eru andvígar veiðum en það hefur ekki tekist.

Efir valdaskiptin í Washington í vetur hefur þrýstingur aukist af hálfu bandarískra þingmanna á bandarísk stjórnvöld um að þau beiti sér fyrir því að hvalveiðar verði stöðvaðar eða að minnsta kosti að veruleg verði dregið úr þeim. Japanar veiða um 900 hrefnur í vísindaskyni árlega, Í Noregi hefur verið leyft að veiða um þúsund hrefnur í atvinnuskyni og á Íslandi stendur til að veiða um 100 hrefnur og 150 langreyðar í atvinnuskyni í sumar.   

William Hogarth, sem lætur af formennsku í hvalveiðiráðinu á ársfundi í júní, sat í gærkvöldi fyrir svörum þingnefndar, sagðist harma, að viðræður að undanförnu hefðu ekki skilað árangri. Sagði hann að Japanar hefðu ekki komið fram með raunhæfar tillögur.  

Japanar buðust í viðræðunum til þess að fækka hvölum, sem veiddir eru í vísindaskyni í Suðurhöfum, gegn því að þeir fengju strandveiðikvóta. Bandaríkjamenn töldu hins vegar að tillögur Japana gengju alls ekki nógu langt.

Í skýrslu, sem Alþjóðahvalveiðiráðið sendi frá sér í vikunni, er viðurkennd að enn beri mikil á milli aðila og ljóst að ekkert samkomulag náist fyrir ársfund ráðsins á portúgölsku eyjunni Madeira í júní. Er lagt til, að viðræðum verði haldið áfram næsta árið og að vísindamenn fari yfir tillögur Japana um strandveiðar á hrefnu.  

En 35 bandarískir þingmenn skrifuðu í gær bréf til Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, þar sem lýst er miklum áhyggjum af því að viðræðunum verði haldið áfram. Setja verði skýr markmið um að fækka þeim hvölum sem veiddir eru.  

Madeleine Bordallo, þingmaður demókrata á eyjunni Guam, sagði við Hogarth á nefndarfundinum í gær, að Bandaríkin hafi verið og eigi að vera í fararbroddi þeirra þjóða sem vilja venda hvali.

„Það steðjar stöðugt meiri hætta að hvölum, svo sem hávaði neðansjávar, mengun og loftslagsbreytingar, og Bandaríkin ættu því að herða róðurinn frekar en að semja frá sér vernd fyrir þessar stórkostlegu skepnur, sagði hún.

Kitty Block, varaforseti dýraverndunarsambandsins   Humane Society International, gagnrýndi Hogarth einnig á fundinum og sagði, að hann hefði verið á villigötum með málamiðlunartilraunir sínar.

„Hvers vegna ætti Japan, sem stöðugt hefur hunsað vilja alþjóðasamfélagsins í þessu efni og sniðgengið verndunarmarkmið Alþjóðahvalveiðiráðsins sjálfs, að fá umbun?” spurði hún.  

Hogarth sagði, að afstaða Bandaríkjanna hefði ekki breyst með forsetaskiptunum í janúar og allir bandarískir embættismenn ynnu að því markmiði að draga úr hvalveiðum. Ríkisstjórn Obama hefur þó sagt, að hún muni því aðeins fallast á samkomulag um hvalveiðar, sem styrki verulega friðunarmarkmið.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert