Sherpinn Apa komst í nótt í 19. skipti á tind Everestfjalls. Hann er nú á leið niður eftir að hafa dvalið í um hálfa klukkustund á tindinum í 8848 metra hæð.
Apa, sem er 49 ára, komst fyrst á tindinn árið 1990. Ferð hans nú var helguð baráttu gegn loftslagsbreytingum, sem hafa haft umtalsverð áhrif á Everest og önnur fjöll í Himalaíafjallgarðinum.
Rúmlega 100 fjallgöngumenn hafa komist á tind Everest í vor og eru 29 leiðangrar í fjallinu nú.
Edmund Hillary og Tenzing
Norgay gengu fyrstir á Everest árið 1953. Yfir 3000 manns hafa síðan komist á tindinn, þar á meðal fjórir Íslendingar.