Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, undirritaði í kvöld reglugerð til þess að lina aðgangshörku gagnvart þeim sem skulda vegna greiðslukortanotkunar. „Það er auðvelt að komast inn [fá kort innsk. blm.] en það er nánast ómögulegt að komast út,“ sagði Obama við undirritun reglugerðarinnar.
Reglugerðinni er ætlað að koma í veg fyrir að vextir á skuldum séu hækkaðir, nema að liðnum tveimur mánuðum eftir eindaga. Þá þurfa kortafyrirtæki að tilkynna um hækkun vaxta með 45 daga fyrirvara.
Almenningur í Bandaríkjunum skuldar mikið í greiðslukortaskuldir og hafa margir lent illa í því í efnahagsþrengingum að undanförnu. Ekki síst er það fátækt fólk sem ræður ekki við skuldir sem fylgja hefðbundinni neyslu. Kortafyrirtæki hafa verið sökuð um að ganga of hart fram, ekki síst eftir að halla tók undan fæti í rekstri þeirra.
Reglugerðinni er einnig ætlað að koma í veg fyrir að ungt fólk, undir 21 árs, geti notað kortin af vild. Er þetta einkum gert þar sem reynslan sýnir að sá hópur lendir í einna mestum vanda vegna skulda.
„Greiðslukortafyrirtæki sinna mikilvægri þjónustu. Við viljum hins vegar tryggja að þau sýni lágmarks sanngirni í sínum viðskiptum,“ sagði Obama.