Breska blaðið Daily Telegraph upplýsir í dag, að John Wick, fyrrum yfirmaður í sérsveitum breska hersins, hafi komið upplýsingum um fríðindagreiðslur til breskra þingmanna til blaðsins.
Wick rekur nú eigið ráðgjafarfyrirtæki. Hann segir í samtali við Telegraph að hann hafi fengið í hendur upplýsingar um útgjöld þingmanna frá ónafngreindum heimildarmanni og ákveðið að koma þeim upplýsingum á framfæri við breskan almenning vegna þess að ljóst væri, að árleg skýrsla, sem átti að gefa út í júlí um útgjöldin, segði aðeins hálfan sannleikann.
„Þetta mun bæði bæta þingið og þjóðfélagið," segir Wick í samtali við blaðið í dag og segist ekki sjá eftir því að hafa afhjúpað rotinn kjarna kostnaðargreiðslukerfis breska þingsins.
Wick segir, að gögnunum, sem hann fékk í hendur, hefði ekki verið stolið heldur hefði verið um að ræða óskráð eintak, sem komst í umferð vegna lélegrar öryggisgæslu í þinginu.
Wick var í sérsveitum breska hersins, SAS sveitunum, á áttunda áratug síðustu aldar en rekur nú fyrirtæki sem veitir tryggingafélögum ráðgjöf. Hann er félagi í Íhaldsflokknum og hefur tekið þátt í starfi hans. Í vinahópi hans eru nokkrir háttsettir flokksfélagar.
Telegraph heldur áfram að birta upplýsingar um reikninga, sem þingmenn hafa látið breska þingið greiða. M.a. er upplýst í dag, að Khalid Mahmood, þingmaður Verkamannaflokksins, hafi látið þingið greiða 1350 pund, jafnvirði rúmleg 270 þúsund króna, fyrir hótelgistingu á 5 stjörnu hóteli í Lundúnum fyrir sig og unnustu sína.
Bernard Jenkin, þingmaður Íhaldsflokksins, hefur látið þingið greiða leigu fyrir mágkonu sína og Paul Goggins, aðstoðarráðherra Norður-Írlandsmála hefur leyft gömlum vini sínum að búa ókeypis í íbúð, sem kostuð er af skattgreiðendum.