Fréttaskýring: Tannhjól í drápsvélinni

John Demjanjuk.
John Demjanjuk. AP

John Demjanjuk situr nú í fangelsi í München og bíður þess að yfir honum hefjist réttarhöld vegna glæpa, sem hann er sakaður um að hafa framið í útrýmingarbúðunum í Sobibor í Póllandi í heimsstyrjöldinni síðari.

Demjanjuk var framseldur frá Bandaríkjunum fyrir tæplega hálfum mánuði. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem sótt er að Demjanjuk. Hann var framseldur frá Bandaríkjunum til Ísraels fyrir 23 árum. Honum var gefið að sök að hafa starfað í Treblinka-fangabúðunum og hlotið viðurnefnið Ívan grimmi. Þar var hann dæmdur til dauða, en ný gögn komu fram í málinu til vitnis um að hann væri ekki Ívan grimmi og hæstiréttur Ísraels hnekkti dauðadóminum. Demjanjuk var látin laus og fór aftur til Bandaríkjanna. Hann var hins vegar ekki sloppinn. Undanfarna mánuði hafa þýsk yfirvöld reynt að fá hann framseldan og nú hafa þau fengið sitt fram. Enn er ekki víst að Demjanjuk teljist nógu heilsuhraustur til að réttarhöld geti farið fram, en fari svo er ekki ólíklegt að það verði síðustu stríðsglæparéttarhöldin í Þýskalandi vegna heimsstyrjaldarinnar síðari.

Demjanjuk fæddist í Úkraínu árið 1920 og var skírður Ívan. Þegar hann var tvítugur var hann kvaddur í rauða herinn. Vorið 1942 var hann tekinn til fanga og um sumarið gaf hann kost á sér til starfa á vegum SS-sveita nasista. Hann hlaut þjálfun í Trawnik-fangabúðunum eins og um fimm þúsund menn, sem hjálpuðu nasistum við þjóðarmorðið á gyðingum og kallaðir voru trawnikar. Eftir þjálfunina varð hann vaktmaður á vegum SS-sveitanna. Hann starfaði í tveimur alræmdustu gereyðingarbúðum nasista, Majdanek og Sobibor í Póllandi. Þegar stríðinu lauk starfaði hann í fangabúðunum í Flossenbürg í Þýskalandi.

Demjanjuk var skráður í hóp þeirra fjölmörgu, sem voru á vergangi í stríðslok, og starfaði fyrir Bandaríkjamenn í ýmsum flóttamannabúðum í Suður-Þýsklandi til 1951. Árið 1952 siglir hann til Bandaríkjanna ásamt konu og barni og kveðst hafa verið stríðsfangi í stríðinu. Sex árum síðar verður hann bandarískur ríkisborgari og tekur sér nafnið John.

Árið 1977 hefur bandaríska dómsmálaráðuneytið hins vegar málaferli gegn Demjanjuk fyrir að hafa veitt rangar upplýsingar þegar hann varð ríkisborgari og 1981 missir hann ríkisborgararéttinn.

„Reyndur og skilvirkur vaktmaður“

Demjanjuk neitar þessu og kveðst hvorki hafa verið í Sobibor né sent gyðinga í gasklefa.

Thomas Blatt var fangi í Sobibor þegar Demjanjuk er gefið að sök að hafa verið þar vörður. Hann er nú 82 ára að aldri. Blatt kveðst ekki muna eftir Demjanjuk í Sobibor, en bætir við að hann muni heldur ekki eftir andlitum foreldra sinna, sem voru myrt í búðunum ásamt yngri bróður hans. Blatt var í hópi nokkurra fanga, sem sluppu úr Sobibor í uppreisn, sem átti sér stað þar í október 1943.

Dagblaðið The New York Times hafði eftir Blatt að réttarhöldin sjálf væru mikilvægari en að refsa Demjanjuk. „Mér er sama þótt honum verði sleppt, vitnisburður hans skiptir mig máli,“ sagði Blatt, sem býr í Kaliforníu og hefur skrifað tvær bækur um reynslu sína. „Margir segja nú að helförin hafi aldrei átt sér stað.“

Þýsk stjórnvöld segja að það væri gott ef réttað yrði í máli Demanjuks. „Fórnarlömb helfararinnar eiga það inni hjá okkur,“ sagði Frank-Walter Steinmeier, varakanslari Þýskalands.

Í stríðsglæparéttarhöldunum í Nürnberg þurftu þeir, sem lögðu á ráðin um helförina, að svara til saka. John Demjanjuk er gefið að sök að hafa verið lítið tannhjól í drápsvél nasista. Helförin hefði hins vegar aldrei átt sér stað hefði enginn tekið að sér störf á borð við þau, sem Demjanjuk er sakaður um að hafa gegnt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert