Enn mótmæla franskir bændur

Bændur undirbúa mótmælin í Brussel í morgun
Bændur undirbúa mótmælin í Brussel í morgun AP

Franskir mjólkurframleiðendur lokuðu aðgengi að 81 mjólkurbúi í morgun og í Brussel tóku mjólkurframleiðendur frá tíu ríkjum Evrópusambandsins þátt í mótmælum fyrir utan höfuðstöðvar ESB. Vilja bændur með þessu mótmæla því hve lágt verð þeir fá fyrir mjólkurafurðir sínar. 

Samkvæmt upplýsingum frá samtökum mjólkurframleiðenda í Frakklandi tóku um 12 þúsund franskir mjólkurframleiðendur þátt í aðgerðunum í morgun. Hefur þeim fjölgað verulega en í síðustu viku tóku um fjögur þúsund bændur þátt í mótmælum í Frakklandi. Alls eru mjólkurframleiðendur um 150 þúsund talsins í Frakklandi og starfa þar um 3 þúsund mjólkurbú.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu tóku um 900 bændur þátt í mótmælunum þar en landbúnaðarráðherrar ESB-ríkjanna munu funda þar í dag. Verður meðal annars fjallað um það verð sem bændur fá fyrir mjólkurafurðir sínar. Segja bændur að algjört hrun hafi orðið á greiðslum til bænda fyrir mjólk og mjólkurafurðir í ríkjum ESB undanfarna mánuði. Franskir bændur fá greitt 21 evrusent fyrir mjólkurlítrann sem er 30% lægri fjárhæð heldur en í apríl í fyrra. Neytendur greiða um eina evru fyrir mjólkurlítrann.


Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert