Fleiri breskir þingmenn hætta við framboð

Hjónin Sir Nicholas og Ann Winterton, þingmenn Íhaldsflokksins, ætla hvorugt að bjóða sig fram til þings í næstu kosningum. Þetta kemur fram á vef Telegraph. Þau hafa bæði verið harðlega gagnrýnd fyrir að þiggja endurgreiðslur til þingmanna vegna kostnaðar sem ekki á sér stoð í raunveruleikanum.

Í bréfi sem þau hafa sent David Cameron, formanns Íhaldsflokksins, kemur fram að þau treysti sér ekki lengur til þess að taka þátt í stormasömu ástandi stjórnmálanna og þau vilji hætta svo þau geti eytt meiri tíma með fjölskyldunni.

Ákvörðun þeirra kemur í kjölfar fréttar Telegraph um að þau fóru fram á endurgreiðslu kostnaðar upp á ríflega 80 þúsund pund vegna leigu á lítilli íbúð í Lundúnum sem er í eigu sjóðs sem börn þeirra stýra.

Alls fór Nicholas fram á að fá endurgreidd 41.508 pund vegna leigunnar og Winterthon 41.584 pund. Frá árinu 2002 hefur íbúðin verið skráð á sjóð sem börn þeirra stýra. 

Fengu hjónin árlega endurgreitt vegna leigu og kostnaðar vegna íbúðarinnar nema þegar stutt var í kosningar. Jafnframt fór Winterton fram á að fá yfir 1.100 pund endurgreidd vegna ýmiskonar kostnaðar, svo sem uppsetningu á hlutum á baðherbergi íbúðarinnar, svo sem handklæðahaldara og klósettbursta. Eins vegna kostnaðar við að kaupa straujárn og strauborð.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert