Barack Obama Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í morgun að tilraunakjarnorkusprengja Norður-Kóreumanna í nótt sé ógn við heimsfriðinn. Yfirvöld í N-Kóreu staðfestu í morgun að þau hefðu sprengt kjarnorkusprengju í tilraunaskyni. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
„Norður-Kóreumenn eru með beinum og ábyrgðarlausum hætti að ögra alþjóðasamfélaginu," sagði hann. „Framkoma Norður Kóreu eykur spennu á svæðinu og grefur undan stöðugleika í Norðaustur-Asíu."
Bandaríska utanríkisráðuneytið lýsti fyrr í morgun yfir miklum áhyggjum af málinu og sagði að það væri greinilegt brot gegn ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Innan við þrjár vikur eru frá því Bandaríkjastjórn tilkynnti áform um átak til að koma viðræðum um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu aftur í gang.
Um er að ræða aðra kjarnorkusprengju Norður-Kóreumanna en fyrri sprengjuna sprengdu þeir í tilraunaskyni í október árið 2006.