Réttarhöld yfir Vísindakirkjunni hefjast brátt í Frakklandi, en kirkjan er sökuð um fjársvik. Frönsk kona heldur því fram að hún hafi verið beitt þrýstingi til að greiða háar fjárhæðir í ýmislegt sem tengist Vísindakirkjunni eftir að henni hafði verið boðið ókeypis persónuleikapróf.
Lögmaður kirkjunnar segir hins vegar að hún muni verjast öllum ásökunum og vísar því á bug að kirkjan hafi beitt konunni þrýstingi.
Frakkar líta á Vísindakirkjuna sem sértrúarflokk. Fréttaskýrendur segja mögulegt að kirkjan verði bönnuð tapi hún málinu.
Þetta er í fyrsta sinn sem kirkjunni er stefnt í fjársvikamáli í Frakklandi. Fyrri dómsmál hafa snúið að einstökum meðlimum í kirkjunni, að því er segir á fréttavef BBC.
Konan, sem höfðar málið, heldur því fram að liðsmenn kirkjunnar hafi gengið upp að sér í París boðið sér að taka ókeypis persónuleikapróf. Þetta hafi síðan endað með því að hún eyddi öllum sparnaði sínum í bækur, lyf og rafmagnsmælitæki sem tengjast Vísindakirkjunni.
Lögmenn hennar halda því fram að kirkjan hafi með kerfisbundnum hætti ætlað sér að græða á henni með því að beita hana andlegum þrýstingi og lækna hana með vafasömum vísindameðferðum.