Vissu af Watergatehneykslinu

Richard M. Nixon flytur kveðjuræðu eftir afsögn sína fyrir starfsfólk …
Richard M. Nixon flytur kveðjuræðu eftir afsögn sína fyrir starfsfólk Hvíta hússins 9. ágúst 1974 með Patriciu konu sína og Trishu dóttur sína sér við hlið. mbl.is

Fyrrverandi blaðamenn The New York Times hafa viðurkennt að þeir hafi fengið ábendingu frá yfirmanni bandarísku alríkislögreglunnar um Watergate-hneykslið árið 1972 en ekki gert neitt í því. Tveir blaðamenn The Washington Post, Bob Woodward og Carl Bernstein, urðu seinna heimsfrægir fyrir að afhjúpa hneykslið sem varð til þess að Richard Nixon neyddist til að segja af sér forsetaembættinu í ágúst 1974.

Robert Smith, fyrrverandi blaðamaður The New York Times, skýrir frá því í grein í blaðinu að hann hafi fengið ábendingu um málið þegar hann snæddi kvöldverð með Patrick Gray, sem var þá yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar, FBI. Þeir voru vinir og snæddu kvöldverð saman í tilefni af því að Smith var að láta af störfum fyrir The New York Times.

Tveimur mánuðum áður var hópur manna staðinn að innbroti í Washington til að reyna að koma fyrir hlerunarbúnaði í kosningaskrifstofum demókrata. „Hann sagði mér að dómsmálaráðherrann væri viðriðinn yfirhylmingu og ég spurði: hversu hátt nær þetta? Til forsetans?“ skrifar Smith. „Og hann sat þarna, horfði á mig og svaraði ekki. Svarið var í svipbrigðunum.“

Smith flýtti sér á ritstjórnarskrifstofu The New York Times og sagði ritstjóranum Robert Phelps frá samtalinu. Phelps tók samtalið upp á segulband og skrifaði niður minnispunkta.

Smith hætti í blaðamennsku daginn eftir til að nema lögfræði í háskóla. Phelps fór í mánaðarlangt frí til Alaska skömmu eftir samtalið og hóf störf fyrir Boston Globe um miðjan áttunda áratuginn. Smith kvaðst ekki vita hvers vegna Phelps fylgdi ábendingunni ekki eftir.

Skýrt var frá því fyrir þremur árum að aðalheimildarmaður Woodwards og Bernsteins væri Mark Felt, sem var þá aðstoðarforstjóri FBI.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka