Barack Obama, Bandaríkjaforseti, mun tilnefna Soniu Sotomayor í embætti dómara við hæstarétt Bandaríkjanna. Verði tilnefningin staðfest verður Sotomayor fyrsti bandaríski hæstaréttardómarinn af spænskum ættum.
Sotomayor er 54 ára að aldri og dómari við áfrýjunardómstólinn í New York. Hún á að taka við af David H. Souter, hæstaréttardómara, sem lýsti því yfir í vor að hann vildi draga sig í hlé.
Aðeins tvær konur hafa setið í hæstarétti Bandaríkjanna til þessa. Önnur þeirra, Ruth Bader Ginsburg, situr nú í réttinum.
Að sögn AP fréttastofunnar tók Obama ákvörðun um tilnefninguna um helgina. Hann skýrði aðstoðarmönnum sínum þó ekki frá henni fyrr en í morgun.
Þekktasta embættisverk Sotomayor sem dómara var að setja lögbann á aðgerðir eigenda hafnaboltaliða árið 1995. Þannig var bundinn endi á átta mánaða verkfall hafnaboltaleikara en það mun vera lengsta verkfall atvinnuíþróttamanna í sögunni.
Gert er ráð fyrir að öldungadeild Bandaríkjaþings fjalli um tilnefningunua í júlí og verði hún staðfest getur Sotomayor tekið sæti í hæstarétti í október eftir réttarhlé.
Demókratar eru í meirihluta í öldungadeildinni og því er ekki talið að staðfestingin taki langan tíma nema eitthvað óvænt komi upp á.