Vilja banna Nakba-athafnir

Palestínumaður heldur á lykli að heimili sínu í Ísrael við …
Palestínumaður heldur á lykli að heimili sínu í Ísrael við Nakba-athöfn í Nablus á Vesturbakkanum. Reuters

Mannréttindasamtök og stjórnarandstöðuflokkar araba í Ísrael hafa brugðist ókvæða við fréttum af því að ríkisstjórn landsins hafi samþykkt að leggja lagafrumvarp fyrir þingið þar sem ísraelskum aröbum er bannað að taka þátt í „Nakba” athöfnum þar sem stofnunar Ísraelsríkis er minnst sem hörmunga. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Ríkisstjórn Ísraels samþykkti á sunnudag tillögu Avigdor Lieberman, utanríkisráðherra landsins, um að slíkt lagafrumvarp verði lagt fram á þinginu. Einn ráðherra Verkamannaflokksins lagðist gegn því. 

Um 700.000 Palestínumenn hröktust frá heimilum sínum í Ísrael eftir að Ísraelar lýstu yfir stofnun Ísraelsríkis árið 1948  og hafa margir þeirra aldrei snúið til baka. Um 20% ísraelskra ríkisborgara eru arabar. 

Palestínumenn um allan heim minnast stofnunar Ísraelsríkis þann 15 maí ár hvert og hafa margir ísraelskir arabar tekið þátt í slíkum athöfnum. Samkvæmt frumvarpinu geta ísraelskir ríkisborgarar hins vegar átt allt að þriggja ára fangelsisvist yfir höfði sér taki þeir þátt í slíkum athöfnum. 

Hanna Swaid, þingmaður arabaflokksins Hadash, segir slíka lagasetningu „ósiðlega kynþáttamismunun" og „grófa móðgun við lýðræðið og frelsi þegnanna." 

Isaac Herzog, ráðherra samfélagsmála sem lagðist gegn frumvarpinu, segir hættu á því að það leiði til heftingar tjáningarfrelsis og stuðli að aukinni sundrungu meðal þjóðarinnar. 

Þá segir talsmaður samtakanna Association for Civil Rights in Israel (Acri) samþykkt stjórnarinnar merki um að lýðræðið eigi í vök að verjast í Ísrael.

 „Nakba-athafnir eru ekki ógnun við öryggi Ísraelsríkis heldur eru þær hluti af lögbundnum grundvallarréttindum hvers einstaklings eða hóps fólks til að tjá sorg sína yfir hörmungum sem þeir hafa gengið í gegn um," segir Acri Sammi Michael, forseti Acri.  

Ríkisstjórn Ísraels mun á næsta sunnudag ræða annað lagafrumvarp Ysrael Beiteinu, flokks Liebermans, þar sem m.a. er kveðið á um að ísraelskum ríkisborgurum verði gert að sverja Ísrael sem „lýðræðisríki gyðinga og síonista” trúnaðareið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert