Tveir af stofnendum góðgerðarstofnunar múslíma í Bandaríkjunum, voru í dag dæmdir í 65 ára fangelsi hvor fyrir að brjóta lög með því að veita Hamas-samtökunum fjárhagslegan stuðning. Hamas-samtökin eru á lista bandarískra yfirvalda yfir hryðjuverkasamtök.
Shukri Abu Baker og Ghassan Elashi höfðu áður verið sakfelldir ásamt þremur öðrum forsvarsmönnum Holy Land Foundation sem var stærsta góðgerðarstofnun múslíma í Bandaríkjunum. Stofnunin var fundin sek um að hafa veitt Hamas-samtökunum fjárhagslegan stuðning að andvirði 12 milljóna dollara (1,5 milljarða króna) til að reka skóla og standa straum af kostnaði vegna félagslegrar þjónustu.
Mennirnir fimm voru fundnir sekir um peningaþvott og stuðning við hryðjuverkasamtök. Þeir segjast hins vegar aðeins hafa viljað hjálpa bágstöddum Palestínumönnum.