Þótt aðildarríki Evrópusambandsins séu sammála um að breyta þurfi sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins, er ekki þar með sagt að ríkin séu sammála um hvað eigi að felast í þeim breytingum. Tilgangurinn með breytingunum er að draga úr ofveiði, auka hagkvæmni og endurskoða útgjöldin. Endanlegt samkomulag er alls ekki í augsýn.
Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherrar aðildarríkja ESB funduðu í Brussel á mánudag og ræddu m.a. um tillögur í Grænbók framkvæmdastjórnar ESB um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, segir að á fundinum hafi náðst samkomulag um að afnema í raun núgildandi reglur um úthlutun kvóta. Ennfremur hafi tékkneskur embættismaður, en Tékkar fara með forsæti í ráðherraráðinu um þessar mundir, staðfest að ráðherrarnir hafi verið einhuga um að draga stórlega úr miðstýringu í þessum málaflokki.
Carole Micmacher-Grandcolas, talsmaður ráðherraráðsins í fisk- og sjávarútvegsmálum, var í samtali við Morgunblaðið í gær ekki tilbúin til að staðfesta þessa frásögn BBC. Hún benti á að meðal aðildarríkjanna væru mjög skiptar skoðanir um hvort færa ætti meira vald til einstakra ríkja eða svæða. Stjórnkerfi aðildarríkjanna væru mjög misjöfn. Í Þýskalandi, á Spáni og á Ítalíu hefðu fylki eða svæði mikil völd en í öðrum ríkjum, s.s. í Frakklandi, væri miðstýring mjög mikil.
Hið sama má raunar segja um Bretland, nema hvað Skotland nýtur ákveðinnar sjálfstjórnar. Í slíkum ríkjum væri valdið því væntanlega fært til viðkomandi höfuðborga.
Micmacher-Grandcolas sagði einnig að á fundinum hefðu sumir ráðherrar bent á að það væri til bóta að tiltekin mál væru á hendi ráðherraráðsins þótt hægt væri að færa ákveðin tæknileg úrlausnarefni til ríkja eða héraða.
Um aðrar hugsanlegar breytingar ríkti meiri samstaða. „Menn voru almennt sammála um að það þyrfti að draga úr brottkasti. En það er ekki þar með sagt að menn hafi verið sammála um þær leiðir sem ætti að fara að því að draga úr brottkastinu,“ sagði hún.
Reglan um hlutfallslegan stöðugleika, þ.e. að ríki fái úthlutaðan fiskveiðikvóta í samræmi við sögulega veiðreynslu sína, er mikið rædd í tengslum við hugsanlega aðildarumsókn Íslands að ESB.
Micmacher-Grandcolas sagði að regluna hefði borið á góma á fundinum. Sumir ráðherrar hefðu lýst því yfir að reglan ætti að gilda áfram en aðrir hefðu sagt hana gamaldags. Hún vildi ekki segja hvaða ríki styðja regluna og hver vilja breytingar, en benti á að afstaðan færi m.a. eftir því hvaða fiskveiðiréttindi ríki hefðu. „Pólland varð aðili eftir að reglan var sett á og er því ekki meðal þeirra ríkja sem hagnast mest á henni, á meðan Spánverjar og Frakkar hafa meiri hagsmuna að gæta,“ sagði hún.