Barnaverndaryfirvöld í Rússlandi hafa tekið fimm ára stúlku í sína umsjá eftir að í ljós kom að hún hefur haft meiri samskipti við hunda og ketti en manneskjur. Stúlkan, sem bjó hjá frændfólki sínu, getur ekki talað en geltir eins og hundur og borðar án þess að nota hendurnar.
Talið er að stúlkan hafi aldrei fengið að fara út úr skítugri blokkaríbúðinni þar sem hún bjó með frændfólki sínu og fjölda hunda og katta í borginni Chita í austurhluta Síberíu.
Í yfirlýsingu yfirvalda segir að stúlkan hafi flaðrað upp um fulltrúa yfirvalda er þeir komu inn í íbúðina til að kynna sér aðstæður hennar.
„Á öllum þessum árum hefur stúlkan eingöngu lært að tjá sig á dýramáli,” segir í yfirlýsingunni. Hún mun þó skilja rússnesku.
Stúlkan, sem gengur undir gælunafninu „Mowgli", nýtur nú umönnunar lækna og sálfræðinga. Hún er sögð við góða heilsu og hafa góða matarlyst en eiga sérlega erfitt með að læra að nota hnífapör. Þá stekkur hún geltandi á hurðina þegar hún er skilin ein eftir í herbergi.
Til stendur að lögreglurannsókn fari fram á máli stúlkunnar en í mars hvatti Dmitrí Medvedev, Rússlandsforseti, til stórhertra aðgerða til að koma í veg fyrir slæma meðferð á börnum í landinu. Sagði hann 760.000 rússnesk börn búa við óviðunandi aðstæður.