N-Kóreumenn hóta S-Kóreu

Norður-Kóreumenn við ánna Yalu við borgina Sinuiju í Norður-Kóreu.
Norður-Kóreumenn við ánna Yalu við borgina Sinuiju í Norður-Kóreu. Reuters

Yfirvöld í Norður Kóreu hafa hótað hernaðaraðgerðum gegn Suður-Kóreu eftir að yfirvöld þar í landi tilkynntu að þau muni taka þátt í hernaðarsamvinnu sem miðar að því að tryggja kjarnorkuvopnaleysi á nærliggjandi hafsvæðum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Yfirvöld í Suður-Kóreu tilkynntu í gær að þau myndu ekki draga það lengur að gerast aðilar að verkefninu Proliferation Security Initiative (PSI), sem Bandaríkjaher stýrir en það felst m.a. í leit um borð í skipum sem þykja grunsamleg. 

Fram kemur í yfirlýsingu yfirvalda í Norður-Kóreu að þau telji sig ekki lengur bundin af vopnahléi sem verið hefur í gildi á milli ríkjanna frá lokum Kóreustríðsins árið1953.

Yfirvöld þar hafa margvarað Suður-Kóreumenn við því að þau myndu líta á þátttöku þeirra í verkefninu sem stríðsyfirlýsingu. Talsmaður stjórnarhers Norður-Kóreu segir ekki lengur hægt að álíta skipaleiðir á svæðinu öruggar.

„Litið verður á hverja fjandsamlega aðgerð gegn friðsamlegum skipum okkar, þeirra á meðal leit og upptöku farms, sem ófyrirgefanlega árás á sjálfstæði okkar og við munum strax bregðast við því með öflugri hernaðarárás,” segir talsmaðurinn.  

Gervihnattamyndir sýna reyk stíga upp af Yongbyon kjarnorkuverinu í Norður-Kóreu og virðist það benda til þess að Norður-Kóreumenn hafi gert alvöru úr hótunum sínum um að hefja kjarnorkutilraunir þar að nýju.

Tveir dagar eru frá því þeir sprengdu kjarnorkusprengju í tilraunaskyni og í gær sendu þeir tvö skammdræg flugskeyti einnig í tilraunaskyni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert