Mark Regev, talsmaður Ísraelsstjórnar, segir að yfirvöld í Ísrael muni áfram leyfa ákveðna uppbyggingu innan landnemabyggða gyðinga á Vesturbakkanum þrátt fyrir kröfur bandarískra stjórnvalda um að allri uppbyggingu þar verði hætt. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Þá segir hann að enn eigi eftir að semja um framtíð landnemabyggðanna í friðarsamningum Ísraela og Palestínumenna. „Í millitíðinni verðum við að leyfa eðlilega þróun innan þessara samfélaga,” segir hann.
Ummælin virðast vera svar við yfirlýsingu Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þess efnis að ekki verði veittar neinar undantekningar frá þeirri kröfu Baracks Obama Bandaríkjaforseta að Ísraelar hætti allri uppbyggingu landnemabyggða sinna á palestínsku landi.
Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, mun hitta Obama í Hvíta húsinu í dag. Obama hitti fyrir skömmu Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og segir Clinton hann þá hafa sett fram mjög skýrar kröfum um að Ísraelar hættu uppbyggingu landnemabyggða.
Ísraelar rifu nýlega niður byggingar sem komið hafði verið upp í tveimur ósamþykktum landnemabyggðum á Vesturbakkanum. Yfirvöld þar samþykktu hins vega einnig byggingu nýrrar landnemabyggðar í nágrenni Jerúsalem.