Viðbúnaðarstig hækkað í Kóreu

Norður-kóreskir hermenn leika blak á bökkum Yalu-árinnar í nágrenni bæjarins …
Norður-kóreskir hermenn leika blak á bökkum Yalu-árinnar í nágrenni bæjarins Sinuiju. Reuters

Viðbúnaðarstig hersveita Suður-Kóreu og Bandaríkjanna í Suður-Kóreu  hefur verið hækkað í kjölfar hótana Norður-Kóreumanna um að rjúfa vopnahlé Kóreuríkjanna. Viðbúnaðarstigið er nú á öðru stigi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

„Eftirlit með norðrinu mun verða hert og munu fleiri hermenn og flugvélar taka þátt í því, segir Won Tae-Jae talsmaður suður-kóreska varnarmálaráðuneytisins. 

Þá hefur Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýst því yfir að Norður-Kóreumenn muni taka afleiðingum þess að hafa sýnt nágrönnum sínum yfirgang eða ögrandi framkomu. Hún sagði þá þó enn eiga möguleika á að snúa við blaðinu.

„Norður-Kóreumönnum munu gefast tækifæri til að koma aftur að samningaborðinu innan sex þjóða hópsins og þá getum við aftur farið að sjá árangur af því að vinna með Norður-Kóreumönnum að kjarnorkuvopnaleysi á svæðinu,” sagði hún. 

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tók í sama streng og sagði að stórveldin þurfi að standa fast á sínu gagnvart Norður-Kóreu en þó gæta þess að auka ekki enn frekar á spennu á svæðinu. Þá varaði hann við refsingum sem þjóni þeim eina tilgangi að refsa. 

„Ég endurtek það að við verðum að standa fast á kjarnorkuleysisstefnunni en á sama tíma megum við ekki gleyma því að einungis er hægt að finna lausnir á vandamálum með viðræðum um þau,” sagði hann.  

Talsmaður Hvíta hússins hefur sagt að svo virðist sem Norður-Kóreumenn séu enn á ný að kalla á athygli með kjarnorkutilraunum sínum og hótunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka