Greint hefur verið frá því að bresku hjálparsamtökin The League of Friends, sem styðja War Memorial sjúkrahúsið í Brampton, muni að fullu fá endurgreiddar innistæður sínar hjá Kaupthing, Singer & Friedlander. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Samtökin áttu 261.000 sterlingspund inni á reikningum í bankanum er íslensku bankarnir hrundu og höfðu forsvarsmenn samtakanna óttast að þau fengju einungis 50.000 endurgreidd úr brekum tryggingasjóðum.
Samtökin nutu stuðnings þingmannsins David Maclean við að endurheimta féð en til þess þurfti að færa rök fyrir því að þau mætti skilgreina sem „smásöluinnistæðueiganda".
„Við urðum að svara fjölmörgum spurningum til að sanna að við værum réttu megin línunnar. Það tókst en hefur tekið mjög langan tíma,” segir stjórnarmaðurinn John Holland.
„Það er ástæðan fyrir töfinni og sennilega alveg rétt, að það þarf að skoða hvern og einn þannig að rétta fólkið fái peningana." Þá segir hann að sjóðir samtakanna, sem voru varðveittir annars staðar, hafi haldið þeim starfshæfum undanfarna mánuði.