Malaría myndar ónæmi gegn lyfi

Drengur situr undir moskítóneti í Zambíu.
Drengur situr undir moskítóneti í Zambíu. Reuters

Rannsóknir í Kambódíu benda nú í fyrsta sinn til þess að malaría sé að mynda ónæmi gegn því lyfi sem reynst hefur árangursríkast í meðhöndlun sjúkdómsins. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Segja sérfræðingar að lyfið taki nú lengri tíma að virka á sníkjudýrinu en áður og að bregðast verði hratt við þróuninni í Kambódíu til að koma í veg fyrir að ónæmi breiðist út og valdi jafnvel heimsfaraldri. 

Lyfið hefur til þessa hreinsað sníkjudýrin úr blóði á tveimur til þremur dögum en gerir það nú á fjórum til fimm dögum. Svipuð þróun hefur áður dregið mjög úr áhrifum eldri malaríulyfja. 

„Tvisvar áður hefur Suðaustur-Asía, óafvitandi, gefið heiminum, og þá sérstaklega Afríku, sníkjudýr sem hafa verið ónæm fyrir lyfjum,” segir Nick Day formaður Mahidol-Oxford Tropical Medicine rannsóknarverkefnisins. „Endurtaki slíkt sig mun dreifing ónæmra sníkjudýra frá Asíu til Afríku, hafa hræðileg áhrif á baráttuna gegn útbreiðslu malaríu." 

Tveir hópar sérfræðinga hafa greint frá rannsóknum sem benda í þessa átt. Talið er hugsanlegt að rekja megi þróunina til notkunar ólöglegra eftirlíkinga af lyfinu. Slík lyf innihalda oft lítinn skammt af virka efninu sem nægir ekki til að drepa sníkjudýrið og veitir því þannig tækifæri til að mynda ónæmi. 

Milljónir manna láta þegar lífið á hverju ári vegna malaríu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert