Breska blaðið Sunday Times segir í dag, að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, vilji að Ed Balls, núverandi skólamálaráðherra, verði fjármálaráðherra í stað Alistair Darling. Búast megi við því að tilkynnt verði um miklar breytingar á ríkisstjórninni í lok þessarar viku.
Kosið er til Evrópuþingsins í vikunni og skoðanakannanir benda til þess, að Verkamannaflokkurinn gjaldi afhroð. Einnig er fylgi flokksins nú minna en bæði Íhaldsflokksins og Frjálslyndra demókrata samkvæmt skoðanakönnun, sem Sunday Telegraph birti í gær.
Sunday Times segir, að þær breytingar, sem Brown vill gera, gætu reynst honum dýrkeyptar og leitt til þess að krafist verði leiðtogakjörs í flokknum. Segir blaðið, að staða Browns sé afar veik og sumir ráðherrar sniðgangi raunar skipanir frá Downingstræti. Haft er eftir innanbúðarmönnum, að ráðherrar séu jafnvel hættir að svara símtölum frá Brown.