Bandarísku forsetahjónin Barack og Michelle Obama fóru í gærkvöldi á stefnumót í New York, fengu sér að borða og brugðu sér síðan í leikhús á Broadway. Obama sagðist vera að efna kosningaloforð.
„Ég lofaði henni, meðan á kosningabaráttunni stóð, að ég myndi fara með hana í leikhús á Broadway eftir að öllu þessu lyki," sagði forsetinn í yfirlýsingu, sem hann sendi frá sér í gærkvöldi.
Bandaríski Repúblikanaflokkurinn var fljótur að gagnrýna forsetann fyrir eyðslusemi en þau hjónin flugu frá Washington til New York með lítilli þotu og í fylgd með þeim voru embættismenn, öryggisverðir og fréttamenn.
„Á sama tíma og Obama forseti undirbýr að fljúga til leikhúshverfisins á Manhattan í forsetavélinni er General Motors að undirbúa gjaldþrotaskipti og bandarískar fjölskyldur geta ekki borgað reikningana sína," sagði á heimasíðu landsnefndar Repúblikanaflokksins.
Þau Barack og Michelle snæddu kvöldverð á veitingahúsinu Blue Hill og síðan sáu þau verkið Joe Turner's Come and Gone, eftir August Wilson. Þau flugu aftur til Washington um kvöldið.