Vaxandi stuðningur virðist vera við Lissabonsáttmála Evrópusambandsins á Írlandi. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Irish Times myndu 54% þjósenda þar í landi samþykkja sáttmálann ef gengið yrði til atkvæðagreiðslu um hann nú. Einungis 28% myndu hafna honum en 18% eru óákveðnir.
Írar höfnuðu samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta ári, þvert á allar skoðanakannanir. Þeim hefur síðan verið lofað að tekið verði aukið tillit til sjónarmiða þeirra og er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðsla fari aftur fram í landinu um samninginn síðar á þessu ári. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Samkvæmt könnuninni telja fjórir af hverjum fimm Írum hag þjóðarinnar betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess í ljósi þeirra efnahagsþrenginga sem nú eru að ganga yfir.
Talið er að stjórnarflokkur Brian Cowen, Fianna Fáil, komi vel út úr kosningum til Evrópuþingsins en kosið verður til þingsins á Írlandi á föstudag.