Darling biðst afsökunar

Gordon Brown hlustar á ræðu Alistair Darling vegna Evrópuþingskosninganna í …
Gordon Brown hlustar á ræðu Alistair Darling vegna Evrópuþingskosninganna í Kirk Hallam. Reuters

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, hefur viðurkennt að hafa þegið kostnaðargreiðslur vegna íbúðar í London eftir að hann flutti inn í embættisbústað ráðuneytisins. Hann hefur beðist afsökunar á málinu og segir að um einlæg mistök hafi verið að ræða. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Þá segist hann þegar hafa endurgreitt þá fjárhæð sem um ræðir. Áður hafði talsmaður hans staðhæft að fullyrðingar um að hann hafi þegið kostnaðargreiðslur eftir að hann flutti inn í embættsbústaðinn væru rangar.  

Geoff Hoon, flutningamálaráðherra Bretlands, hefur einnig endurgreitt kostnað sem hann hafði fengið greiddan frá ríkinu vegna svokallaðs annars heimils síns. Fyrst mun hann hafa krafist kostnaðar ár fram í tímann vegna húsnæðis í Derbyshire en síðan einnig vegna annars húsnæðis.

Hann segir einnig að um mistök hafi verið að ræða og hefur beðist afsökunar á þeim. Háværar kröfur eru nú uppi um að Darling segi af sér.  Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær ljóst að Darling hefði sýnt gáleysi í málinu en að hann hefði þó staðið sig frábærlega sem fjármálaráðherra. 

Talið er líklegt að Darling verði látinn víkja er Brown gerir breytingar á ríkisstjórn sinni. Fastlega er gert ráð fyrir að það verði síðar í þessari viku. Allt þykir benda til þess að Verkamannaflokkurinn tapi miklu fylgi í kosningum til Evrópuþingsins í vikunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka