Kim útnefnir ríkisarfa

Kim Jong-un.
Kim Jong-un.

Kim Jong-il, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur að sögn suður-kóreskra fjölmiðla útnefnt yngsta son sinn, Kim Jong-un, sem leiðtoga landsins eftir sinn dag. Miklar vangaveltur hafa verið um það að undanförnu hverjum sé ætlað að taka við merki leiðtogans.

Að sögn blaða og þingmanna hefur leyniþjónusta Suður-Kóreu veitt þingmönnum upplýsingar um málið. Samkvæmt þeim fréttum var norður-kóreskum embættismönnum skipað að styðja Kim Jong-un  eftir kjarnorkurtilraunina, sem gerð var 25. maí.

Vitað er að heilsa Kim Jong-ils er að bila og því hafa verið miklar vangaveltur um hvern hann tilnefni sem eftirmann sinn líkt og faðir hans, Kim Il Sung, útnefndi hann sinn eftirmann. 

Sérfræðingar segja, að kjarnorkutilraunir og tilraunir með flugskeyti á síðustu dögum kunni að vera ætlað að treysta völd Kims svo hann geti útnefnd eftirmann sinn án mótstöðu.

Líkastur föður sínum

Kim Jong-un  er talinn vera um 25 ára. Hermt er að hann hafi verið skipaður til setu í norðurkóreska þjóðvarnarráðinu. Þar situr hann þó ekki í innsta hring.

Kim Jong-il á þrjá syni og er Kim Jong-un sagður líkastur föður sínum í útliti, skoðunum og gildismati . Af þremur eiginkonum sínum er Kim Jong-il sagður hafa haldið mest upp á móður hans, Ko Yong-hee, sem lést í bíslysi 2004.

Kim Jong-un lærði við alþjóðlega skólann í Bern í Sviss og er sagður halda upp á vestrænar poppstjörnur, hraðskreiða þýska bíla, körfubolta og leikarann Jean-Claude van Damme.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert