Yfirvöld í Brasilíu rannsaka nú staðhæfingar um að áhafnir annarra farþegavéla hafi séð glampa á eitthvað í sjónum nokkru eftir að síðast heyrðist frá Airbus-þotu Air France flugfélagsins sem talið er að hafi farist í Atlantshafi í gærmorgun. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Tveir brasilískir flugmenn eru sagðir hafa séð blossa og appelsínugula fleti á yfirborði hafsins um 350 km frá eyjunni Fernando de Noronhaum um 40 mínútum eftir að síðast heyrðist frá vélinni. Þeir höfðu hins vegar ekki heyrt af slysi á svæðinu og gerðu því engar ráðstafanir.
Ekki liggur enn fyrir hvað kom fyrir vélina en talið er víst að hún hafi hafnað í hafinu. Nær ómögulegt er talið að nokkur hafi komist af en Jorge Amaral yfirmaður björgunardeildar brasilíska heraflans segir að leit muni fara fram eins og hugsanlegt sé að einhver sé enn á lífi.
Pierre-Henry Gourgeon, yfirmaður Air France segir tólf bilanatilkynningar hafa borist frá vélinni áður en hún hvarf. Þær hafi allar borist á svipuðum tíma og því sé ljóst að keðja bilana, sem engin fordæmi séu fyrir, hafi orðið. Verði staðfest að allir 228 sem voru um borð í vélinni hafi farist er um mannskæðasta flugslys á Atlantshafi að ræða til þessa.
Einn Íslendingur var um borð í vélinni en í henni voru sjö börn og eitt ungabarn. 126 farþega hennar voru karlmenn en 82 konur.