Vinstriflokknum Inuit Ataqatigliit (IA), sem er í stjórnarandstöðu, er spáð sigri í þingkosningum sem fram fara á Grænlandi í dag. Nýleg skoðanakönnun bendir til þess að IA fái 44% atkvæðanna og nær tvöfaldi fylgi sitt frá kosningunum árið 2005 þegar flokkurinn fékk 23% atkvæðanna.
Jafnaðarmannaflokknum Siumut er spáð 28% kjörfylgi. Siumut hefur verið við völd á Grænlandi í þrjá áratugi. Samstarfsflokkur Siumut í stjórninni, Atassut, fær um 9% atkvæðanna, helmingi minna fylgi en fyrir fjórum árum, ef marka má skoðanakönnunina.
Ásakanir um spillingu stjórnmálamanna voru í brennidepli í kosningabaráttunni. Fréttir blaðsins AG um „bruðl yfirstéttarinnar“ hafa vakið mikla reiði kjósenda. Blaðið segir að embættismenn Siumut hafi misnotað fé almennings með því að láta landsjóðinn greiða fyrir kvöldverði með vinum og ættingjum þeirra, ferðir í einkaerindum og húsgögn.