Osama bin Laden, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, hefur sent frá sér nýtt ávarp þar sem hann gagnrýnir harðlega stefnu Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, í málefnum Miðausturlanda.
Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera skýrði frá þessu skömmu eftir að Obama lenti í Sádi-Arabíu. Um er að ræða ávarp á hljóðsnældu, líkt og bin-Laden hefur áður sent frá sér. Þar segir bin Laden, að Obama fylgi stefnu fyrirrennara síns, George W. Bush, gagnvart múslimum.
Í gær sendi Ayman al-Zawahiri, næstráðandi bin Ladens í al-Qaeda, frá sér ávarp þar sem hann hvatti Egypta til að hunsa Obama.
Obama mun dvelja nokkrar klukkustundir í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu, í dag en halda síðan til Kaíró í Egyptalandi. Þar mun hann halda ræðu, sem talið er að muni marka tímamót í samskiptum Bandaríkjanna og íslamskra ríkja. Obama vonast til að geta tekið upp viðræður við múslioma, eytt misskilningi og komið friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs af stað á ný.