Rúmlega helmingur Bandaríkjamanna lítur svo á að pyntingar geti verið réttlætanlegar til að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Associated Press-GfK. Könnunin sýnir einnig að mjög skiptar skoðanir eru meðal Bandaríkjamanna um fyrirhugaða lokun Guantanamo fangabúða Bandaríkjahers.
52% þeirra sem tók þátt í könnuninni segjast líta svo á að pyntingar séu stundum réttlætanlegar til að komast yfir upplýsingar sem geti komið í veg fyrir hryðjuverk. Í sambærilegri könnun frá árinu 2005 sögðust 38% vera þeirrar skoðunar. Mun meiri stuðningur er við þetta sjónarmið meðal repúblíkana en demókrata.
Þá segjast 47% styðja áform Baracks Obama Bandaríkjsforsetaum lokun Guantanamo-búðanna en 47% vera mótfallin þeim. Mun meiri stuðningur er við áform Obama meðal demókrata en repúblíkana.
Samkvæmt könnuninni hafa 70% aðspurðra trú á því að Obama muni ganga vel í baráttunni gegn hryðjuverkum. Um 35% óttast hins vegar enn að þeir eða ástvinir þeirra verði fórnarlömb hryðjuverka og hefur það hlutfall ekki minnkað á undanförnum fimm árum.
Þá segjast 23% þátttakenda í könnuninni styðja repúblíkanaflokkinn en í síðasta mánuði sögðust 18% þátttakenda í sambætilegri könnun gera það.
64% þátttakenda segjast hins vegar sáttir við frammistöðu Obama í embætti Bandaríkjaforseti og um helmingur segist telja Bandaríkin vera á réttri leið.
Obama gaf fyrirmæli um að Guantanamo-búðunum skyldi lokað nokkrum dögum eftir að hann tók við embætti og lýsti því þá einnig yfir að Bandaríkjamenn stundi ekki pyntingar.
Öldungadeild Bandaríkjaþings hafnaði því síðan í atkvæðagreiðslu, með 90 atkvæðum gegn 6, að veita aukafjárveitingu vegna fyrirhugaðrar lokunar búðanna í upphafi næsta árs.
Skoðanakönnun AP-GfK Poll var gerð á tímabilinu 28. maí til 1. júní. 1.000 fullorðnir einstaklingar tóku þátt í könnuninni og voru skekkjumörk hennar 3,1%.