Vinstriflokknum Inuit Ataqatigliit (IA) vann stórsigur í þingkosningum, sem fóru fram á Grænlandi í gær.
Flokkurinn fékk 43,7% atkvæða og 14 þingmenn af 31 á grænlenska landsþinginu og tvöfaldaði fylgi sitt frá síðustu kosningum, sem fóru fram 2005. Af 14 þingmönnum IA eru 8 konur.
Jafnaðarmannaflokkurinn Siumut fékk 26,6% atkvæða og 9 þingmenn, tapaði 3,9% en Siumut hefur verið við völd á Grænlandi í þrjá áratugi. Samstarfsflokkur Siumut í heimastjórninni, Atassut, fékk 10,9% atkvæða og 3 þingmenn, tapaði 8,1%. Demókrataflokkurinn fékk 12,7% atkvæða og 4 þingmenn, tapaði 9,9%. Þá fékk Kattusseqatigiit 3,8% atkvæða og 1 mann.
Kuupik Kleist, formaður IA, lýsti því yfir eftir að úrslitin lágu fyrir, að hann myndi ekki mynda stjórn með Siumut. Kleist sagðist strax myndu hefja viðræður um myndun nýrrrar samsteypustjórnar og vonandi tækist að ljúka þeim fyrir 21. júní þegar lög taka gildi sem færa Grænlendingum aukna sjálfsstjórn.
Persónukjör er á Grænlandi og það vakti athygli, að Jonathan Motzfeldt, sem lengi hefur verið einn helsti stjórnmálaleiðtogi landsins og stofnaði m.a. Siumut, náði ekki kjöri á landsþingið. Hann fékk aðeins 91 atkvæði sem er 429 atkvæðum minna en í síðustu kosningum. Er þetta rakið til ýmissa hneykslismála, sem hann hefur lent í undanfarin misseri.