Samtök Ameríkuríkja samþykktu í dag að taka Kúbu á ný inn í sambandið. Ákvörðunin er söguleg þar sem hún bindur endi á hálfrar aldar útilokun hennar frá samtökunum vegna marxískra tilhneiginga.
Ákvörðunin var samþykkt samhljóða - þar með talið atkvæði Bandaríkjanna sem löngum hefur verið helsti andstæðingur Kúbu - og máir út andkommúnískt ákvæði sem hefur verið í sáttmála samtakanna allar götur frá því 1962.
Utanríkisráðherra Ekvador, Fander Falconi, sagði að ákvörðunin um endurkomu Kúbu í samtökin hefði verið skilyrðislaus. Engu að síður er í textanum undirstrikuð þau ákvæði sáttmálans um stuðning samtakanna við grundvallarsjónarmið lýðræðisins.
Ákvörðunin felur einnig í sér fráhvarf þeirrar stefnu Bandaríkjastjórna að setja skilyrði fyrir endurkomu Kúbu í samtök þessara 34 þjóða Ameríku sem hafa útilokað stjórnvöld í Havana vegna tengsla þeirra við Sovétríkin á tímum kalda stríðsins.
Sagt er að Bandaríkin hafi ekki ákveðið að leggjast gegn atkvæðagreiðslunni í ljósi vaxandi vinstri tilhneigingar í heimsálfunni og talið sig einangruð í baráttunni gagnvart flestum öðrum aðildarríkjunum.
Atkvæðagreiðslan á lokadegi fundarins, sem fór fram í San Pedro Sula á norðurhluta Hondúras, átti sér langan aðdraganda og lág ekki fyrir fyrr en Bandaríkjamenn höfðu játað sig sigraða í þeirri viðleitni að setja Kúbverjum skilyrði fyrir endurkomuni þeirra í samtökin, einkum með tilliti til mannréttindamála.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, játaði síðdegis á þriðjudag að hafa mistekist að hafa náð sameiginlegri niðurstöðu með aðildarríkjunum í sunnanverðri álfunni áður hún hélt til Miðausturlanda til fundar við forseta sinn, Barack Obama.
Ýmsum þykir allur málatilbúnaður Bandaríkjamanna minna mjög á pólitíska sviðsetningu - þar sem verið er að taka Kúbu inn úr kuldanum en án þess að styggja of marga.