Rannsóknarstofnun flugslysa í Frakklandi sagði í dag, að litlar vonir væru um að flugritar Airbus A330-200 farþegaflugvélar Air France, sem fórst yfir Atlantshafi á mánudagsmorgun, finnist. Sjórinn er um 3 km djúpur á þessum slóðum.
Flugvélin hvarf nokkrum klukkustundum eftir að hún lagði af stað frá Rio de Janiero í Brasilíu áleiðis til Parísar. 228 manns voru um borð, þar á meðal íslenskur ríkisborgari, sem búið hafði lengi í Noregi og Brasilíu.
Brak, sem talið er vera úr vélinni, fannst í gær 650 km undan strönd Brasilíu og herskip eru á leið á svæðið.
Á blaðamannafundi í París í morgun sögðu fulltrúar rannsóknarstofnunarinnar, að þeir vonuðust til að geta sent frá sér bráðabirgðaskýrslu um málið í júní ljóst væri að rannsóknin yrði ekki auðveld.
Paul-Louis Arslanian, formaður rannsóknarnefndarinnar, sagði að engar vísbendingar væru um eitthvað hafi verið athugavert áður en flugvélin fór frá Rio. Þá sagði hann, að ekki væri vitað nákvæmlega hvenær flugvélin hefði hrapað í sjóinn og hvort flugstjóri vélarinnar hefði verið við stjórnvölinn.