Clinton gagnrýnir Kínverja

Einkennisklæddir og óeinkennisklæddir lögreglumenn við hlið Forboðnu borgarinnar í Peking.
Einkennisklæddir og óeinkennisklæddir lögreglumenn við hlið Forboðnu borgarinnar í Peking. Reuters

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur hvatt yfirvöld í Kína til að gera opinberlega grein fyrir því hverjir létu lífið er her landsins braut uppreisn námsmanna á bak aftur á Torgi hins himneska friðar fyrir tuttugu árum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Þá sagði hún að Kínverjar ættu að láta þá lausa úr fangelsum sem handteknir voru í tengslum við uppreisnina og hætta að ofsækja aðra þá sem tóku þátt í henni.

Clinton sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem hún segir m.a. að afmælið sé tækifæri fyrir Kína til að endurskoða atburðina og merkingu þeirra. „Kínverjar ættu að skoða dökka atburði fortíðar sinnar á opinn hátt og birta upplýsingar um þá sem létu lífið, voru fangelsaðir eða hurfu, bæði til að læra af því og lækna sár," segir hún.

„Kínverjar geta virt minningu þessa dags með því að leggja sömu áherslu á lagasetningar, mannréttindi sem viðurkennd eru á alþjóðavettvangi og lýðræðisþróun og þau hafa lagt á efnahagsumbætur."

David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands hefur einnig sagt opinberlega að þróunin í mannréttindamálum í Kína hafa verið mun hægari en þróunina í efnahags og félagsmálum.

Ekki er vitað hversu margir létu lífið í aðgerðum hersins en talið er að þeir hafi verið nokkur hundruð ef ekki þúsund.

Mikil öryggisgæsla er nú við torgið vegna þess að tuttugu ár er frá  atburðunum og hafa bæði óeinkennisklæddir og einkennisklæddir lögreglumenn bannað erlendum blaðamönnum og ljósmyndurum aðgang að torginu og Forboðnu borginni undanfarna daga.

Þá hafa margir þekktir stjórnarandstæðingar fengið fyrirmæli um að yfirgefa Peking eða að halda sig á heimilum sínum.

Frá mótmælum við Kínverska sendiráðið í Sydney í Ástralíu.
Frá mótmælum við Kínverska sendiráðið í Sydney í Ástralíu. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka