Obama hvetur til nýs upphafs

Barack Obama Bandaríkjaforseti hvatti Bandaríkjamenn og múslíma um allan heim til þess í ávarpi sem hann flutti í í háskólanum í Kaíró í Egyptalandi í morgun að rjúfa vítahring tortryggni og misklíðar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Forsetinn hvatti til nýs upphafs í samskiptum þessara hópa eftir áralanda tortryggni á báða bóga og sagði báða aðila þurfa að leggja meira að mörkum og sýna meiri virðingu og skilning.

„Ég er kominn hingað til að leita nýs upphaf í samskiptum Bandaríkjanna og múslíma um allan heim, sem byggir á sameiginlegum hagsmunum og gagnkvæmri virðingu,” sagði hann. Þá sagði hann ofbeldisfulla öfgasinna hana ýtt undir ótta og að rjúfa verði þann vítahring sem þeir hafi komið af stað.

Hann sagðist gera sér grein fyrir því að meira þyrfti til að uppræta áralanga tortryggni en eina ræðu en hvatti báða aðila til að tjá sig beint frá hjartanu og segja hluti sem „allt of oft séu eingöngu sagðir á bak við luktar dyr."

Obama sagði einnig að íslam hafi alla tíð verið þáttur af bandarískri sögu. Þá sagði hann mikið hafa verið gert úr því að Bandaríkjamaður af afrískumuppruna með millinafnið Hussein hefði orðið forseti Bandaríkjanna. Saga hans væri hins vegar ekki jafn einstök og af væri látið.

„Draumurinn um tækifæri fyrir alla hefur ekki ræst hjá öllum í Bandaríkjunum, en möguleikinn er til staðar fyrir alla þá sem koma að ströndum okkar," sagði hann. „Þeirra á meðal eru sjö milljónir bandarískra múslíma.”   

Obama kom til Egyptalands frá Sádi-Arabíu í gær og fer þaðan til Þýskaland og Frakklands.

Barack Obama Bandaríkjaforseti við upphaf ræðu sinnar í háskólanum í …
Barack Obama Bandaríkjaforseti við upphaf ræðu sinnar í háskólanum í Kaíró. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert