Fjórir bandarískir unglingspiltar voru á miðvikudag ákærðir fyrir kynferðisbrot gegn þrettán ára skólafélaga sínum. Piltarnir sem eru fjórtán og fimmtán ára beittu fórnarlambið oftsinnis ofbeldi á tveggja mánaða tímabili og notuðu m.a. til þess kústskaft og hokkíkylfu. Réttað verður yfir piltunum sem fullorðnum mönnum og eiga þeir yfir höfði sér allt að 120 ára fangelsi verði þeir sakfelldir.
Piltarnir eru allir nemendur sama skóla í borginni Tampa í Flórídaríki. Árásirnar áttu sér stað í búningsherbergi í skólanum og héldu tveir þeirra fórnarlambinu á meðan hinir tveir beittu það ofbeldi. Fjölmörg vitni voru að árásunum en ekkert þeirra – né fórnarlambið – greindi frá þeim.
Upp komst um kynferðisbrotin eftir að slagsmál brutust út á skólavellinum, en þátttakendur í þeim voru m.a. árásarmennirnir og fórnarlambið. Leikfimikennari stöðvaði slagsmálin og sagðist fórnarlambið þá vera orðið þreytt á ofbeldi í sinn garð. Í kjölfarið var gerð rannsókn á málinu og játuðu piltarnir fjórir að hafa brotið gegn yngri piltinum kynferðislega.
Piltarnir fjórir hafa ekki komist í kast við lögin áður og eru sagðir afbragðsnemendur.