Dætur erfi krúnuna

Frá brúðkaupi Friðriks krónprins og konu hans Mary.
Frá brúðkaupi Friðriks krónprins og konu hans Mary. Reuters

Danir ganga að kjörborðinu í dag. Samhliða því að velja fulltrúa sína á Evrópuþingið greiða þeir atkvæði um hvort breyta eigi ríkiserfðalögunum á þá vegu að dætur konungs eða drottningar verði jafnréttháir erfingjar og bræður þeirra.

Samkvæmt ríkiserfðalögunum dönsku frá 1953 erfir elsti sonur krúnuhafans ávallt tignina en Margrét Danadrottning átti ekki bræður. Verði lögin samþykkt í dag mun elsta barn konungs eða drottningar erfa stólinn óháð kyni.

Þótt Danir séu þekktir fyrir jafnréttishugsun sína er alls óvíst um hvort lögin verði samþykkt. Berlingske Tidende greinir frá því að samkvæmt nýjustu könnunum séu 62,5 prósent fylgjandi breytingunni á lögunum og þótt það þýði vissulega meirihluta fyrir breytingunni þá dugar það ekki endilega til. Ríkisarfalögunum er nefnilega eingöngu hægt að breyta séu a.m.k. 40% skráðra kjósenda því fylgjandi og því fer það alveg eftir kjörsókninni hvort fylgið dugi til. Menn óttast, í ljósi þess hversu dræm þátttaka er yfirleitt í kosningum til Evrópuþingsins, að þótt meirihluti þeirra sem kjósa séu breytingunni fylgjandi verði þeir samt sem áður færri en 40% þeirra sem eru á kjörskrá.

Fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur og verðandi aðalritari NATO, Anders Fogh Rasmussen, segir að það yrði „virkilega neyðarlegt" fyrir landið ef breytingunni verður hafnað. „Á alþjóðlegum vettvangi myndi það grafa undan trúverðugleika okkar sem þjóðar sem berst fyrir jafnrétti kynjanna."

Hann nefnir hins vegar ekki þá staðreynd að krúnuhafi Dana er kona sem á miklum vinsældum að fagna meðal þjóðar sinnar og hversu neyðarlegt það yrði fyrir hana og þjóðina ef lögin yrðu felld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert