Eva Joly, fyrrverandi rannsóknardómari í Frakklandi, segir ljóst að hún hafi náð kjöri á Evrópuþingið fyrir franska flokkinn Europe Ecologie. Joly segir við norsku fréttastofuna NTB, að hugsanlega nái flokkurinn tveimur mönnum á þingið.
Joly er fædd í Noregi en bjó lengi í Frakklandi. Hún er ráðgjafi embættis sérstaks saksóknara á Íslandi, sem rannsakar bankahrunið.
Kosningum til Evrópuþingsins lauk í aðildarríkjum Evrópusambandsins í dag. Víðast hvar hefur kjörsókn verið dræm og svo virðist vera sem aðeins 43% atkvæðisbærra manna í löndunum hafi nýtt atkvæðisrétt sinn. Í síðustu kosningum árið 2004 var kjörsókn 45,5%.
Skoðanakannanir benda til þess, að íbúar í löndunum séu óánægðir með hvernig stjórnvöld hafi tekið á málum vegna fjármálakreppunnar.