Hékk á lest á 100 km hraða

Bandarískur piltur  lifði af ógnvekjandi næturferð þar sem hann hékk í stiga utan á hraðlest sem fór á rúmlega 100 km hraða um óbyggðir Ástralíu.

Chad Vance, 19 ára piltur frá Alaska, var á ferð í Ghan lestinni, sem fer á milli Adelaide til Alice Springs í Ástralíu. Lestin var stöðvuð á brautarstöð og átti að leggja af stað á ný 40 mínútum síðar. Vance fékk sér gönguferð á meðan en þegar hann kom að lestinni aftur var hún lögð af stað.

Vance hljóp á eftir lestinni og náði taki á stiga milli vagna. Honum tókst hins vegar ekki að opna vagnhurðina og það liðu tveir klukkutímar þar til starfsmaður í lestinni heyrði hrópin í Vance, greip í neyðarhemilinn og stöðvaði lestina. Þá hafði lestin farið um 200 km vegalengd. 

„Chad er afar heppinn. Þegar við björguðum honum var hann orðinn hvítur af kulda og varir hans voru bláar," sagði Marty Wells, sem bjargaði piltinum við ástralska blaðið Sunday Mail. „Við áttum enn eftir þriggja stunda ferðalag til næsta áfangastaðar og hann hefði líklega látist af ofkælingu eða misst takið og dottið af lestinni hefði honum ekki verið bjargað.

Vance sagðist hafa óttast að hann lifði ekki þetta ævintýri af. Hann var klæddur í gallabuxur, bol og gönguskó. „Ég óttaðist að mér yrði svo kalt á höndunum og svo loppinn að ég myndi missa takið og detta af lestinni." 

Á leiðinni tók hann myndir af sér á farsíma þar sem hann lýsti ferðinni. 

Wells segir, að Vance hafi skolfið eins og hrísla í nokkrar klukkustundir eftir að hann kom inn í lestina. Hann fékk heita súpu að drekka og eftir að hafa farið í sturtu fékk hann að leggja sig í svefnvagni. Vance fór síðan úr lestinni í Alice Springs til að skoða sig um.

Lestin The Ghan.
Lestin The Ghan.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert