Dæmdar í 12 ára þrælkunarbúðir

Fréttakonurnar Euna Lee (t.v) og Laura Ling hafa verið dæmdar …
Fréttakonurnar Euna Lee (t.v) og Laura Ling hafa verið dæmdar í 12 ára þrælkunarbúðir. STR

Dómstóll í Norður-Kóreu hefur dæmt tvær bandarískar fréttakonur í 12 ára fangelsisvist í þrælkunarbúðum. Réttarhöldin stóðu í fimm daga og var konunum tveimur gefið að sök „að hafa framið alvarlegan glæp gegn kóresku þjóðinni með því að fara ólöglega inn í landið.“

Fréttakonurnar tvær, Laura Ling og Euna Lee, voru handteknar við landamæri Norður-Kóreu og Kína 17. mars sl. en þar voru þær að vinna að frétt þess efnis að íbúar Norður-Kóreu reyndu að flýja heimaland sitt.

Ljóst má vera að dómurinn mun auka spennuna milli stjórnvalda í Bandaríkjunum og Norður-Kóreu, en samskipti landanna hafa verið stirð allt síðan Norður-Kóreumenn skutu eldflaug á loft 5. apríl sl. og framkvæmdu tilraunakjarnorkuskot 25. maí sl.

Haft er eftir Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að ásakanirnar gegn fréttakonunum séu tilhæfulausar og að leyfa ætti konunum að snúa til síns heima. Clinton upplýsti líka að bandarísk stjórnvöld íhuguðu nú að setja Norður-Kóreu aftur á lista sinn yfir hryðjuverkaþjóðir.

Stjórnmálaspekingar telja að stjórnvöld í Norður-Kóreu hyggist beita  fréttakonunum fyrir sig til þess að koma á beinum viðræðum við bandarísk stjórnvöld. Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa lengi sóst eftir því að eiga aðild að viðræðum um kjarnorkuvopnaafvopnun sem Bandaríkjamenn hafa leitt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert