Litil þátttaka í atkvæðagreiðslu um ríkiserfðir

Margrét Þórhildur Danadrottning
Margrét Þórhildur Danadrottning Reuters

85,4% þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á  lögum um ríkiserfðir í Danmörku samþykktu að breyta lögunum þannig  að elsta barn konungs eða drottningar erfa stólinn óháð kyni. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

 Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 58,7% og fréttaskýrendur segja  að dræm þátttaka bendi til meiri andstöðu við lagabreytinguna en gert hafi verið ráð fyrir. Talið er að kosningaáróður forsætisráðuneytisins hafi ýtt undir andstöðu við breytinguna.

Samkvæmt eldri ríkiserfðalögunum í Danmörku frá 1953 erfði elsti sonur krúnuhafans tignina en væri hann ekki fyrir hendi þá elsta dóttir. Sú var raunin með Margréti Danadrottningu en hún átti ekki bræður.

Johannes Andersen, sérfræðingur í kosningatölfræði við Álaborgarháskóla segir að hin dræma þátttaka hafi verið kjaftshögg fyrir ríkisstjórnina. Segir hann það greinilega hafa verið mistök að láta atkvæðagreiðsluna fara fram samhliða kosningu til Evrópuþingsins en kosningaþátttaka í slíkum kosningum er yfirleitt lítil.

Þá segir hann greinilegt að það hafi farið fyrir brjóstið á mörgun að boðað væri til þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni sem þeir telji ekki aðkallandi.

 Jes Fabricius Møller, lektor í sögu við Saxo-stofnun Kaupmannahafnarháskóla, segir kosningaherferð forsætisráðuneytisins einnig hafa verið misheppnaða. „Herferðin ýtti undir misskilningi enda var svo mikil kaldhæðni í henni að erfitt var að átta sig á því um hvað málið snérist. Þessi tónn virkaði einnig á marga sem yfirlæti og því ákváðu þeir að láta ekki segja sér fyrir verkum," segir hann.

43,3% atkvæðabærra manna samþykktu hins vegar tillöguna en til að  hún teldist samþykkt þurftu að minnsta kosti 40% atkvæðisbærra manna að samþykkja hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert