Við fundinn á stéli Air France farþegaþotunnar er talið líklegt að sérfræðingar í flugslysarannsóknum fái vísbendingar um hvað olli því að vélin hrapaði í Atlantshafið í síðustu viku.
Breska dagblaðið Daily Telegraph vitnar í bandarískan sérfræðing á sviði flugslysarannsókna sem segir að myndir af stélinu bendi til þess að vélin hafi brotnað í sundur í loftinu áður en hún lenti á haffletinum.
Stélið er heillegt og „...það bendir til þess að vélin hafi brotnað í fleiri hluta í loftinu því það eru meiri líkur á því að heilleg flugvél sem hrapar stjórnlaust í hafið brotni í smærri stykki," sagði William Waldock sem kennir flugslysarannsóknir við Embry-Riddle flugtækniháskólann í Arizona.
Danskir sérfræðingar sem Berlingske Tidende ræddi við segir að hin sjálfvirku skilaboð um að loftþrýstingur hafi fallið skyndilega í farþegarýminu gæti bent til þess að vélin hafi hlutast í sundur í háloftunum af einhverjum ástæðum.
„Það er vitað að loftþrýstingurinn í farþegarýminu féll mjög skyndilega. Þegar það gerist bendir það til annarra hluta en bara rafmagnsbilunar. það styrkir kenninguna um að einhvers konar skemmd hafi orðið á burðarvirki vélarinnar," sagði Mogens Holgaard við Berlingske Tidende.
New York Times segir að rannsakað verði hvort sót finnist í öndunarvegi fórnarlambanna eða spor af koltvísýringi í blóði þeirra en það gæti bent til þess að eldur hafi komið upp um borð. Ef vatn er í lungum fórnarlambanna eru meiri líkur á að vélin hafi hrapað í heilu lagi hafði CNN eftir bandarískum sérfræðingi í síðustu viku.