Konur skipa fjóra ráðherrastóla af níu í nýrri landsstjórn Grænlands, sem tók formlega við völdum í dag. Þrír flokkar standa að stjórninni: Inuit Ataqatigiit, Lýðræðisflokkurinn og Kattusseqatigiit Partiiat en flokkarnir Siumut og Atassut, sem mynduðu síðustu landsstjórn, eru í minnihluta.
Kuupik Kleist, leiðtogi IA, er formaður landsstjórnarinnar en flokkurinn fékk 14 þingsæti í þingkosningum, sem fóru fram í síðustu viku. 31 þingmaður er á grænlenska þinginu. Kleist verður einnig utanríkisráðherra Grænlands. Þá mun flokkurinn stýra ráðuneytum viðskipta, námuvinnslu, sjávarútvegs, veiðimála og landbúnaðar.
Lýðræðisflokkurinn, sem fékk fjögur þingsæti, mun stýra ráðuneytum fjármála og samgangna og Jens Frederiksen, formaður flokksins, verður staðgengill Kleist. Þá verður Anthon Frederiksen, formaður Kattusseqatigiit, gegna nýju embætti innanríkisráðherra en hann er eini þingmaður flokksins.
21. júní taka gildi ný lög um aukna sjálfsstjórn Grænlands í ríkjasambandinu við Danmörku og þá munu Grænlendingar að mestu ráða sínum málum sjálfir. Danir munu þó formlega fara með utanríkismál landsins.
57 þúsund manns búa í Grænlandi, þar af um 50 þúsund Inúítar. Landið hefur haft heimastjórn frá árinu 1979 en það hefur fengið 3,4 milljarða danskra króna í styrki árlega frá Dönum, sem svarar til nærri helmings fjárlaga hvers árs.