Fjörutíu og sjö uppreisnarmenn og fimm lögreglu og stjórnarhermenn eru sagðir hafa fallið í átökum í Afganistan á undanförnum þremur dögum. Þá hefur fjölþjóðaliðið í landinu eyðilagt heróínverksmiðju talibana.
Talsmaður bandaríska herliðsins í landinu segir að sautján talibanar hafi fallið í árás fjölþjóðahersins á bílalest Mullah Mustafa, sem sagður var tengjast Quds Force samtökum íranska byltingarhersins, í Ghor-héraði í vesturhluta landsins.„Eftir að gengið hafði verið úr skugga um að óbreyttum borgurum yrði ekki stefnt í hættu, skutu hermenn hátækniflugskeytum á hópinn. Í árásinni féllu Mustafa og 16 herskáir samstarfsmenn hans," segir talsmaðu hersins.
Þrjátíu meintir talibanar hafa einnig fallið í átökum í Uruzgan-héraði í suðurhluta landsins undanfarna daga.
Heróín-verksmiðjan, sem eyðilögð var, var hins vegar staðsett í Helmand-héraði og tóku bandaríkir hermenn, sem staðsettir eru á Persaflóasvæðinu þátt í loftárás á hana auk kanadískra og breskra hermanna sem staðsettir eru í Afganistan.