Tala látinna hækkar enn

Björgunarmenn bera burt lík manns sem fannst í rústum glæsihótelsins.
Björgunarmenn bera burt lík manns sem fannst í rústum glæsihótelsins. ADREES LATIF

Tala látinna vegna sprengjuárásarinnar í borginni Peshawar í norðvesturhluta Pakistans í gær hækkar enn. Að minnsta kosti 16 hafa látið lífið og tæplega 60 hafa særst. Að sögn stjórnvalda er ekki ólíklegt að fleiri lík og fleiri særðir finnist, þar sem hótelgestir geti enn verið fastir í rústum hótelsins.

Meðal þeirra sem létust eru tveir útlendingar sem báðir störfuðu hjá Sameinuðu þjóðunum. 

Fregnir berast af því að hópur vopnaðra manna hafi ruðst í gegnum öryggishlið við hótelið áður en  vörubifreið, sem var full af sprengiefnum, var ekið að glæsihótelinu og sprengd í loft upp. Lögreglan telur að a.m.k. 500 kg af sprengiefnum hafi verið í bifreiðinni. 

Hótelið sem nefnist Pearl Continental hótelið þykir eitt hið glæsilegasta í Peshawar. Það er vinsæll áningastaður jafnt erlendra ferðamanna  sem og pakistanskra viðskiptamanna og stjórnmálamanna. Að mati sérfræðings hjá breska ríkisútvarpinu gerði þessi staðreynd hótelið að tilvöldu skotmarki árásarmanna. 

Ráðamenn í Pakistan óttast Talibanar séu með árásinni að hefna fyrir hernaðaraðgerðir stjórnvalda sem sótt hafa mjög að Talibönum síðustu sex vikur á þremur svæðum í norðvesturhluta Pakistans. Haft er eftir Mian Iftikhar Hussain, upplýsingaráðherra í norðvesturhluta landsins, að hann útiloki alls ekki fleiri hryðjuverkaárásir af þessum toga í nálægri framtíð.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert