Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að viðbúnaðarstig hafi verið hækkað í efsta stig vegna svínaflensunnar (H1N1) og að hún sé nú skilgreind sem heimsfaraldur. Var þetta ákveðið á neyðarfundi stofnunarinnar Genf í Sviss í dag Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Breytingin á viðbúnaðarstiginu mun leiða til þess að lögð verður meiri áhersla á þróun og framleiðslu bóluefnis gegn veirunni. Þá er gert ráð fyrir að yfirvöld leggi aukna fjármuni í að hefta útbreiðslu veikinnar og að gripið verði til víðtækari aðgerða.
Stofnunin hvetur þó til þess að landamæri verði áfram opin og að ekki verði settar á viðskipta eða ferðatakmarkanir.
Fréttaskýrendur segja að breyting á viðbúnaðarstiginu nú muni sennilega leiða til harðrar gagnrýni á að viðbúnaðarstigið skuli ekki hafa verið hækkað fyrr.
Samkvæmt starfseglum stofnunarinnar er viðbúnaðarstig m.a. ákveðið á grundvelli útbreiðslu sjúkdóms utan þess svæðis þar sem hans varð fyrst vart. Svínaflensan kom fyrst upp í Mexíkó fyrir tveimur mánuðum. Hún hefur síðan breiðst hratt út, sérstaklega í Bandaríkjunum, Asíu og Ástralíu.
H1N1 veiran hefur nú greinst í 74 löndum og hafa 27.737 sjúkdómstilfelli verið staðfest. Þá er 141 dauðsfall rakið til veirunnar.