Kólumbísk kona í Kaíró í Egyptalandi hefur greinst með A(H1N1) inflúensuna, eða svínaflensuna svokölluðu. Eiginmaður konunnar greindist með veiruna í gær.
Maðurinn, sem starfar fyrir olíufyrirtæki í Egyptalandi, sneri nýverið til landsins frá Bandaríkjunum. Yfirvöld í Egyptalandi hafa rannsakað 20 einstaklinga til viðbótar, sem maðurinn hefur komist í snertingu við, og reyndust þeir ekki vera smitaðir.
Konan er sú ellefta sem greinist með flensuna í landinu. Tólf ára gömul stúlka, sem hafði verið í Bandríkjunum, var fyrsti einstaklingurinn sem greindist með veiruna í Egyptalandi og í Mið-Austurlöndum 2. júní sl.
Heilbrigðisráðuneyti landsins sagði á þriðjudag að sóttvarnarkví yfir einstaklingum sem sækja nám við Bandaríska háskólann í Kaíró verði framlengd. Þar greindust fimm námsmenn, sem eru frá Bandaríkjunum með A(H1N1) veiruna.